Stefnuskrá SGI
Sem aðildarsamtök og meðlimir Soka Gakkai International (SGI), helgum við okkur þeim markmiðum og hlutverki að leggja okkar af mörkum til friðar, menningar og menntunar, með heimspeki og hugsjónir búddhisma Nichiren Daishonin að leiðarljósi.
Við gerum okkur grein fyrir að aldrei fyrr í sögunni hefur mannkynið upplifað samtímis jafn gífurlegar andstæður stríðs og friðar, mismununar og jafnréttis, fátæktar og allsnægta eins og á 20. öldinni. Þróun á sífellt flóknari hernaðartækni eins og kjarnorkuvopnum hefur skapað ástand þar sem sjálf lífsafkoma mannkynsinsins hangir á bláþræði. Sá raunveruleiki sem felur í sér ofbeldisfulla mismunun og aðgreiningu á þjóðarbrotum og trúarbrögðum býður upp á endalausa hringrás átaka.
Eigingirni og óhóf mannkynsins hafa orsakað vandamál á heimsmælikvarða. Þeirra á meðal eru vanvirðing á náttúrunni og sívaxandi efnahagsleg gjá milli ríkra og fátækra þjóða, sem hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir sameiginlega framtíð mannkynsins.
Við trúum því að búddisminn, mannúðarheimspeki Nichiren Daishonin, byggð á óendanlegri virðingu fyrir helgi lífsins og umhyggju fyrir öllu lífi, geri einstaklingnum fært að rækta og birta meðfædda visku. Hún nærir sköpunargáfu mannsandans sem gerir einstaklingum kleift að yfirstíga erfiðleika og þær ógnir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þannig getur vonin um samfélög sem þrífast hlið við hlið í friðiog velgengni orðið að veruleika.
Meðlimir og aðildarsamtök SGI eru ákveðin í að halda á lofti merki heimsborgarans, í anda umburðarlyndis og virðingar fyrir mannréttindum, með mannúð búddismans að leiðarljósi. Við tökumst á við þau sameiginlegu vandamál sem mannkynsið stendur frammi fyrir með viðræðum og raunhæfu framtaki byggðu á staðfastri skuldbindingu okkar um baráttu án ofbeldis.
Hér með fylgjum við þessari stefnuskrá og staðfestum eftirfarandi tilgang og grundvallaratriði.
Tilgangur og reglur
-
SGI mun helga sig friði, menningu og menntun, fyrir hamingju og velferð mannkynsins,
byggðu á virðingu búddismans fyrir helgi lífsins.
-
SGI mun samkvæmt hugsjóninni um heimsborgararétt vernda grundvallarmannréttindi og undir
engum kringumstæðum mismuna einstaklingum eða fara í manngreinarálit.
-
SGI mun virða og vernda trúfrelsi og tjáningarfrelsi í trúmálum.
-
SGI mun efla skilning á búddisma Nichiren Daishonin með persónulegum samskiptum og stuðla þannig
að hamingju hvers einstaklings.
-
SGI og aðildarsamtök þess munu hvetja meðlimi til að leggja sitt af mörkum til að stuðla að velgengni
þess þjóðfélags sem þeir búa í með því að reynast góðir þegnar.
-
SGI mun virða sjálfstæði og sjálfstjórn aðildarsamtaka sinna í samræmi við aðstæður í hverju landi.
-
SGI mun, samkvæmt kenningum búddismans um umburðarlyndi, virða önnur trúarbrögð, taka þátt í
umræðum við fulltrúa þeirra og vinna með þeim að lausn á grundvallarmálefnum sem varða allt mannkynið.
-
SGI mun virða fjölbreytileika allra menningarsamfélaga, efla menningarsamskipti þeirra á milli og skapa
þannig alþjóðasamfélag sem byggist á gagnkvæmum skilningi, sátt og samlyndi.
-
SGI mun stuðla að verndun náttúru og umhverfis samkvæmt kenningum búddismans um gagnvirkt
samband manns og náttúru.
-
SGI mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að menntun í leit að sannleika og þekkingu, til að gera
öllum manneskjum kleift að þroska eigin persónuleika og lifa innihaldsríku og hamingjusömu lífi.