Saga SGI
Allt frá uppruna hreyfingarinnar sem umbótasinnuð menntasamtök á árunum á undan seinni heimstyrjöldinni, til núverandi stöðu hreyfingarinnar sem heimsins stærstu samfélagslega sinnuðu samtökum búddískra leikmanna, hefur kjarni Soka Gakkai ávallt verið sannfæring um takmarkalausa möguleika hvers einstaklings og rétt allra til að lifa hamingjusömu, innihaldsríku lífi.
Umbætur á sviði menntunar
Soka Gakkai (þýðir orðrétt „gildisskapandi samfélag“) byrjaði árið 1930 sem fræðsluhópur framfarasinnaðra kennara. Stofnandi þeirra Tsunesaburo Makiguchi (1871-1944), var rithöfundur og fræðimaður. Hann sótti innblástur sinn í búddhisma Nichiren Daishonin og helgaði sig heilshugar því að bæta japanska menntakerfið.
Kenning hans um gildisskapandi menntun, sem hann gaf út í bókaformi árið 1930, snýst um þá grundvallarskoðun að hver einstaklingur hafi ótakmarkaða hæfileika og að menntun sé leit allt lífið að sjálfsvitund, visku og þroska.
Áhersla Makiguchi á sjálfstæða hugsun fram yfir utanbókalærdóm og sjálfstæða ákvarðanatöku fram yfir blinda hlýðni, var bein ögrun við japönsk stjórnvöld þessa tíma, en þau litu svo á að hlutverk menntunar væri að móta auðsveipa þegna fyrir ríkið.
Andstaðan við hernaðarsinnuð stjórnvöld
Upp úr 1930 tók að bera á vaxandi hernaðar- og þjóðernishyggju í Japan, sem náði hámarki með þátttöku þeirra í síðari heimsstyrjöldinni. Herská ríkisstjórnin gerði Shintotrú að ríkistrú, þvert á vilja fólksins, í þeim tilgangi að fegra stríðsrekstur sinn og réðst gegn hverskonar andspyrnu. Neitun Makiguchi og Josei Toda (1900-1958) hans nánasta samstarfsmanns, um að gera málamiðlun með trú sína og ljá stjórnarfyrirkomulaginu stuðning, leiddi til handtöku þeirra og fangelsunar 1943 sem „skoðanaglæpamanna“.
Þrátt fyrir tilraunir til að fá Makiguchi til að láta af grundvallarkenningum sínum hélt hann fast við sannfæringu sína og lést í fangelsi árið 1944.
Uppbygging eftirstríðsáranna
Josei Toda lifði af þessar mannraunir og var leystur úr haldi nokkrum vikum fyrir stríðslok. Mitt í glundroða eftirstríðsáranna í Japan hóf hann að endurreisa Soka Gakkai og víkka hlutverk samtakanna frá vettvangi menntunar til almennra endurbóta í þjóðfélaginu. Hann hvatti til samfélaglagslega virks búddisma sem leið til sjálfstyrkingar, til að yfirstíga hindranir í lífinu og draga fram innri von, sjálfstraust, hugrekki og visku. Þessi boðskapur fékk góðan hljómgrunn, sérstaklega meðal þeirra sem höfðu verið sviptir borgaralegum réttindum í Japan.
Áður en Toda lést 1958, voru meðlimir orðnir um það bil ein milljón. Í kraftmikilli yfirlýsingu sinni árið 1957 hvatti Toda ungmenni til að vinna að afnámi kjarnorkuvopna. Þetta varð síðar að hornsteini í baráttu Soka Gakkai fyrir friði.
Ný framtíðarsýn
Daisaku Ikeda var 32 ára þegar hann varð forseti Soka Gakkai árið 1960 og var eftirmaður Josei Toda (sjá Saga SGI). Undir hans leiðsögn héldu samtökin áfram að vaxa og tóku upp víðtækari stefnu. Alþjóðasamtök Soka Gakkai voru stofnuð 26. janúar 1975 vegna ört vaxandi fjölda meðlima um allan heim, á fyrstu friðarráðstefnu sem haldin var í heiminum á eyjunni Guam. Í dag eru samtökin alþjóðleg hreyfing sem starfar í 190 löndum og svæðum. Meðlimir samtakanna deila með sér framtíðarsýn um betri heim. Heimspeki búddisma SGI er undirstaða hreyfingarinnar, sem leggur áherslu á frið, menningu og menntun.
Daisaku Ikeda, forseti SGI, hefur sem virkur búddisti og heimspekingur tekið þátt í samræðum um ýmis málefni við fólk í fremstu röðum allstaðar að úr heiminum, meðal annars um frið, mannréttindi, hlutverk trúarbragða í þjóðfélaginu, stjarnfræði og mikilvægi menningar.
Samræður þessar og önnur verk hans hafa verið gefin út á 24 tungumálum.
Til að minnast stofnunar SGI leggur Ikeda fram þann 26. janúar ár hvert, tillögur til Sameinuðu þjóðanna þar sem hann bendir á aðferðir til að stuðla að friði.
Josei Toda og Tsunesaburu Makiguchi
Rithöfundurinn og friðarsinninn
Arnold Toynbee og Daisaku Ikeda
Hér er farið stuttlega yfir sögu SGI (á ensku)