Dagleg iðkun
SGI meðlimir iðka kvölds og morgna svokallað gongyo sem felur í sér að kyrja Nam mjóhó renge kjó og fara með hluta úr Lótus sútrunni. Lengd kyrjunar í hvert skipti fer eftir hverjum einstaklingi fyrir sig. Reglubundin iðkun kvölds og morgna er hluti af daglegri iðkun, það er tími þar sem hægt er að endurskoða forgangsröðun sína í lífinu og tengjast dýpri takti lífsins.
Nichiren búddismi kennir að öll virkni alheimsins sé birtingamynd á meginreglu eða lögmáli sem kallað er Nam mjóhó renge kjó. Með því að kyrja Nam mjóhó renge kjó gerir það fólki kleift að skynja þetta lögmál í sínu eigin lífi og komast í takt við það. Með því að setja líf sitt í takt við þetta lögmál getur fólk opnað sína leyndu möguleika og öðlast jafnvægi og sátt við umhverfi sitt.
Þetta er öflug tjáning á valdeflingu einstaklingsins þar sem hver manneskja getur breytt óumflýjanlegum þjáningum lífsins í uppsprettu vaxtar og gleði og haft jákvæð áhrif á fjölskyldu sína og samfélag.
Trú, iðkun og fræðsla
Það eru þrjár grunnstoðir í daglegri iðkun Nichiren búddisma, trú, iðkun og fræðsla. Þetta eru grundavallaratriðin til að draga fram uppljómað ástand manneskjunnar eða búddaeðlið. Trú þýðir að trúa á kenningar Nichiren og deila þeirri trú með honum að allt fólk hafi innra með sér stórkostlega möguleika. Iðkun þýðir að kyrja Nam mjóhó renge kjó ásamt því að útskýra kenningar Nichiren fyrir öðrum. Fræðsla þýðir að fræðast um og skilja búddískar kenningar. Af þessum þremur er trúin mikilvægust. Þetta þýðir ekki að trúa í blindni heldur að hafa opin hug gagnvart jákvæðum möguleikum lífsins.
Forseti SGI, Daisaku Ikeda skrifaði: ,,Í búddisma þýðir trú að hafa hreint hjarta, sveigjanlegan anda og opin huga. Trú er virkni mannlegs lífs sem eyðir myrkum skýjum efa, kvíða og eftirsjár og opnar af einlægni og beinir hjarta manneskjunnar í átt að einhverju stórkostlegu.‘‘
Nichiren útskýrir að trú leiðir af sér iðkun og fræðslu og iðkun og fræðsla dýpki svo trúna. Í ritinu ,,Hið sanna eðli allra fyrirbæra‘‘ segir Nichiren: ,,Leggðu þig fram við hinar tvær leiðir iðkunar og fræðslu. Án iðkunar og fræðslu verður enginn búddismi. Þú mátt ekki aðeins eiga þetta fyrir sjálfan þig, þú verður einnig að kenna öðrum. Bæði iðkun og fræðsla rísa af trú. Kenndu öðrum af bestu getu, jafnvel þótt það sé aðeins ein setning eða málsgrein.‘‘(The Writings of Nichiren Daishonin, p. 386).
Með því að kyrja Nam mjóhó renge kjó, fræðast um kenningar Nichiren og Lótus sútrunnar og stuðla daglega að velferð annara, stefna SGI meðlimir að því að öðlast ástand sannrar hamingju og visku, ásamt því að vilja gefa af sér til samfélagsins.
Umræðufundir
SGI meðlimir iðka daglega heima við en þeir hitta einnig reglulega aðra meðlimi í nærumhverfi þeirra.
Hefðin fyrir umræðufundunum á sér upphaf snemma í sögu Soka Gakkai í Japan fyrir seinni heimstyrjöld og hefur þann tilgang að vera staður fyrir meðlimi til að fræðast um búddískar kenningar og hvernig má nota þær í daglegu lífi.
Umræðufundir í SGI eru yfirleitt haldnir mánaðarlega og flestir á heimilum meðlimanna sjálfra sem bjóða heimili sín sem fundarstað. Fundirnir gefa fólki möguleikann á því að mynda sambönd við annað fólk sem eru að verða æ sjaldséðara í nærumhverfi okkar þar sem fólk getur verið nágrannar til margra ára án þess að eiga nokkur persónuleg samskipti.
Aðalatriði umræðufundanna er að deila reynslu í trú og hvernig fólk hefur umbreytt lífi sínu í gegnum búddíska iðkun. Það er líklega fátt meira hvetjandi fyrir fólk sem er að berjast við vandamál en að heyra frá öðrum sem hafa tekist á við og komist yfir sína erfiðleika.
SGI meðlimir eru hvattir til að nota búddíska iðkun sína til að takast á við og sigrast á erfiðleikum í sínu daglega lífi. Í gegnum þetta ferli fer viðkomandi að meta og draga fram djúpstæða möguleika í sínu eigin lífi. Búddísk iðkun gefur fólki einnig tækifæri til að átta sig á og uppfylla sitt einstaka hlutverk í lífinu.
SGI meðlimir trúa því að þetta ferli sjálfsumbreytingar eða mannúðarbylting, leiði ekki aðeins til valdeflingar einstaklingsins og til uppbyggilegra verka, heldur sé í raun besta aðferðin til að leiða mannkynið í átt að friðsömum, réttlátum og sjálfbærum heimi.